top of page

The Sex Pistols - frumkvöðlar pönksins

Penni: Anna Eir Uggadóttir


Í ár er hálf öld síðan pönkhljómsveitin The Sex Pistols, ein áhrifamesta pönkhljómsveit allra tíma, kom fyrst fram á tónleikum í London. Tónleikarnir voru haldnir í litlum listaháskóla þar sem sveitin átti að hita upp fyrir strákahljómsveitina Bazooka Joe. Pistolarnir spiluðu í tíu mínútur áður en rafmagnið var tekið af og aðal hljómsveitin neitaði að spila á eftir þeim.

Þessi dagur er talinn marka fæðingu pönksins í Bretlandi.



ree

     Það var árið 1975 sem þeir Glen Matlock bassaleikari, Steve Jones gítarleikari og Paul Cook trommari stofnuðu hljómsveit. Malcolm MacLaren kunningi þeirra, eigandi tískubúðarinnar Sex og eiginmaður fatahönnuðarins Vivienne Westwood, benti þeim á mann að nafni John Lydon, sem seinna fékk nafnið Johnny Rotten, sem mögulegan söngvara.

      Lydon var reiður ungur maður sem þótti bæði groddalegur og dónalegur. Hann var með gult úfið hár og ljótar tennur. Lydon hafði aldrei sungið en  ákvað að slá til og gerast meðlimur sveitarinnar og úr varð fullskipuð hljómsveit. MacLaren gerðist umboðsmaður sveitarinnar og nefndi hana The Sex Pistols.  

      Fyrst um sinn fékk hljómsveitin ekki mörg “gigg” þar sem þeim fylgdi mikil ringulreið og æsingur. Mikið var um blóðug slagsmál á tónleikum þeirra og gerðu þeir lítið annað en að æsa áhorfendur upp. Snemma var þó nokkur athygli farin að beinast að Pistolunum. Þeir urðu þekktir fyrir “villmennsku” sína og brjálæði og voru þeir bannaðir á þó nokkrum stöðum í Bretlandi. 

      Í Október 1976 skrifuðu þeir svo undir plötusamning við EMI Records og var smáskífan “Anarchy In The U.K.” gefin út daginn eftir. Lagið náði einhverjum vinsældum meðal ungs fólks innan tónlistarsenunnar en annars lítið út fyrir þann heim. Það var ekki fyrr en Pistolarnir komu fram í sjónvarpsþættinum “Today” hjá sjónvarpsmanninum Bill Grundy að þeir urðu virkilega frægir. Þeir töluðu í aðeins 90 sekúndur allt í allt. Bæði voru strákarnir fullir en einnig þáttastjórnandinn og blótuðu strákarnir í beinni og  kölluðu þáttastjórnandann þar á meðal “Dirty bastard” - eitthvað sem hafði ekki heyrst áður í bresku sjónvarpi. Þetta var mesti skandall og eftir þetta viðtal fengu þeir gífurlega athygli frá fjölmiðlum og voru þeir komnir á forsíður allra helstu blaða í Bretlandi daginn eftir.

     Mikið atvinnuleysi var í Bretlandi á þessum tíma svo mikið var um fátækt og óánægju. Diskóið var í blússandi gangi og hippatímabilið búið. Unga fólkið þráði eitthvað nýtt, eitthvað sem talaði til þeirra og skildi þau. Sex Pistols höfðu ekki getað komið á betri tíma. Þeir komu með eitthvað nýtt, náðu að skapa pönkbyltingu sem hafði ekki bara áhrif á Bretland heldur allan heiminn. Pönkið var fyrir unga fólkið, eitthvað sem eldri kynslóðin skyldi ekki og átti ekki að skilja. Tónlistin var ekki það eina sem skipti máli heldur líka stíllinn; leðurbuxur, rifnir bolir, úfið og litað hár, öryggisnælur, leðurjakkar. Viðhorf þeirra til lífsins og tilverunnar einkenndist af gagnrýni á valdastéttina, drottninguna, græðgina, hippana, diskóið og kapítalismann.

     Bandið fór á túr um Bretland og spilaði aðeins sjö tónleika af tuttugu vegna fordóma og erfiðleika innan bandsins. Hinn venjulegi Englendingur tók þessum “fáráðlingum” ekki þegjandi og vildu koma þeim sem lengst í burtu. Einir tónleikar þessa túrs hafa verið kallaðir “tónleikarnir sem breyttu heiminum”  en þeir voru haldnir í Lesser Free Trade Hall í Manchester. Í salnum var fólk sem varð fyrir áhrifum og áttu eftir að setja mark sitt á tónlistarsöguna. Meðal þeirra voru Ian Curtis, söngvari Joy Division og Morrissey, söngvari The Smiths. 

     Samstarfið milli einstaklinga Sex Pistols fór að ganga verr og verr með aukinni frægð. Snemma árið 1977 var Glen Matlock rekinn úr sveitinni og var Sid nokkur Vicious, gamall vinur Rottens og mikill aðdáandi hljómsveitarinnar, settur í hans stað. Þegar Sid, eða Simon John Ritchie eins og hann hét, byrjaði var eins og gangur sveitarinnar breyttist. Sid kunni ekkert á bassa en þótti bara svo pönklegur. Hann þótti mjög myndarlegur en einnig kolklikkaður svo það passaði vel við ímynd sveitarinnar og laðaði að stóran hóp fólks. Sid fylgdu vandræði og voru flest “slysin” á tónleikum sveitarinnar tengd honum. Sid Vicious var í mikilli eiturlyfjaneyslu en hékk þó í hljómsveitinni þar til hún lagði upp laupana árið 1979. 

     Eftir vesen með plötufyrirtæki skrifuðu þeir undir hjá Virgin Records árið 1977 og gáfu út smáskífuna “God Save The Queen”. Mikil mótmæli voru í kjölfar útgáfunnar þar sem fólk var óvant því að verið væri að gagnrýna drottninguna.

Þó að lagið hafi verið bannað á öllum útvarps- og sjónvarpsstöðvum Bretlands seldust 150.000 eintök á einni og hálfri viku. Seinna sama ár kom út þeirra fyrsta og síðasta plata “Never Mind The Bollocks” sem fór strax í efsta sæti vinsældalistanna og var platan sú mest selda í Bretlandi það ár.

     Sumarið ´78 var skipulagt tónleikaferðalag til Bandaríkjanna. Sú ferð varð hljómsveitinni að bana. Viðhorf almennings til hljómsveitarinnar var slæmt í Bretlandi og voru viðhorf bandarískra kúreka enn verri. Sama hvert þeir komu urðu þeir fyrir áreiti, beðið var eftir þeim á flestum stöðum til að ráðast á þá. Allir meðlimir Sex Pistols voru komnir með nóg undir lokin og sagði Rotten á síðustu tónleikunum sem þeir héldu “Ever get the feeling you’ve been cheated?” 

     Eftir Bandaríkjaferðina miklu sagði Rotten sig úr sveitinni og Sid var lagður inn á spítala eftir of stóran skammt eiturlyfja. Sex Pistols meðlimirnir fóru allir hver í sína áttina. Sid Vicious dó úr of stórum skammti eiturlyfja nokkrum mánuðum seinna eftir að hafa setið inn í fangelsi í nokkurn tíma fyrir morðið á kærustu sinni, Nancy Spungen. Sambandi þeirra hefur oft verið líkt við Rómeó og Júlíu. Sid Vicious og Nancy Spungen voru einhverskonar Rómeó og Júlía pönksins. Ást þeirra stóð stutt yfir en var mikil. Saman bjuggu þau á hinu fræga Chelsea Hotel, þar sem listamenn á borð við Patti Smith, Bob Dylan, Janis Joplin og Leonard Cohen höfðu einnig búið.

Allir hafa þeir Johnny Rotten, Steve Jones og Paul Cook haldið áfram í tónlistinni og unnið með mörgum þekktum tónlistarmönnum. Sex Pistols hefur komið nokkrum sinnum saman aftur, þá með Glen Matlock, en aldrei notið jafn mikilla vinsælda og þeir gerðu áður fyrr.


Comments


bottom of page