Nýnemar athugið!
- Sara Rós Lin Stefnisdóttir

- Sep 30, 2025
- 4 min read
Er smá erfitt að byrja í nýjum skóla? Flestir myndu segja já. Breytingar yfir höfuð geta reynst mörgum erfitt. Sjálf hóf ég nám við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og vissi ekkert hvað var í vændum. Ekkert eldra systkini til þess að segja mér frá hvernig það var að byrja í framhaldsskóla og ekki fræðilegur möguleiki að ég var að fara spyrja foreldra mína sem voru í framhaldsskóla áður en risaeðlurnar voru uppi. Svo hérna er ég með smá samantekt á því sem ég hefði viljað vita þegar ég hóf framhaldsskólagönguna mína.
Það sem ég lærði mjög snemma og hef mest tekið með mér út í lífið sem byrjaði í framhaldsskóla er undirbúningur. Já hljómar eins og algjört grunnatriði og eitthvað sem fólk á að vita en þetta skiptir mjög miklu máli. Að vera undirbúin léttir álagið á manni, gefur þér ákveðið öryggi, sjálfstraust og heildarsýn yfir hlutina. Að byrja pæla í hlutunum nógu snemma og vita hverju má búast við. Kennsluáætlanir og skóladagatöl eru til þess að þú getir skipulagt og undirbúið þig fram í tímann. Auðvitað kemur fyrir að maður nær ekki að undirbúa sig nóg, heldur að maður hafi lengri tíma en maður er með en þá brennir maður sig bara á því. Þú kæri lesandi, ef þú ert ekki undirbúningstýpan og heldur að það skiptir ekki máli, prófaðu. Prófaðu að undirbúa þig vel fyrir kannski næsta próf eða verkefni og sjáðu hvort að þú finnir mun. Að vera undirbúin er líka bara svo mikilvægt í lífinu, fyrir vinnu, vini og fjölskyldu.

Mættu á viðburði á vegum skólans. Það er svo gaman að taka þátt og vera með á þeim viðburðum sem skólinn býður upp á. Nemandafélgög að halda böll, árshátíðir, busaviku og svo skólinn sjálfur er líka að bjóða upp á allskonar hluti. Auðvitað kemst maður ekki á allt og vill kannski ekki vera hluti af ákveðnum viðburðum en ekki láta ótta við að mæta á eitthvað nýtt stoppa þig. Það er svo gaman að geta litið til baka og hugsað til þessara viðburða. Nokkur árum fram í tímann ertu kannski á kaffihúsi með vinum þínum úr framhaldsskólanum og þið getið rifjað upp tímana sem þið voruð saman á einhverjum viðburði. Og svo hver elskar ekki frítt dót? Oft á svona viðburðum er verið að gefa eða bjóða upp á allskonar, allt frá pulsum yfir í orkudrykki.
Gríptu tækifærið. Framhaldsskólar bjóða upp á allskonar tækifæri hvort sem það eru skiptinám, fyrirlestrar eða námskeið. Sjálf fór ég í skiptinám til Spánar á mínu öðru ári og ég gæti ekki mælt meira með því. Ég fór í eina viku með þrem öðrum einstaklingum til Cordoba á Spáni till að læra um frumkvöðlafræði. Það að fá að vera í annarri menningu, veðrið, byggingarnar, fólkið og maturinn. Þess vegna segi ég að þú ættir að grípa tækifæri. Ég sótti bara um og svo kom bara í ljós hvort að ég komst inn í verkefnið eða ekki. Ef þú sérð tækifæri sem kallar til þín skaltu taka því. Betra að kýla á hlutina heldur en að vera með eftirsjá og ,,hvað ef” hugsunina.
Að tengjast fólki í framhaldsskóla. Framhaldsskóli er fullur af allskonar fólki. Kannski er það ógnvekjandi tilhugsun en svona er það. Það eru samt margir á sama báti, finnst erfitt að byrja á nýjum stað, vita ekkert og skilja ekkert en þá er um að gera að kynnast öðrum. Tenslin sem þú myndar í framhaldsskóla geta verið mjög dýrmæt. Að hafa einhvern félagsskap í þessi ár sem þú munt stunda nám í framhaldsskólanum er gott. Það að geta rætt við einhvern um námið, skólalífið, hvað planið er eftir skólann, setið saman í hádeginu og farið með á viðburði. Ég tala ennþá við fólk sem ég var með í FG og er mjög þakklát fyrir að hafa kynnst þeim, myndað tengsl og haldið þeim.
Ekki etja of mikla námspressu á þig. Það að fá góðar einkunnir er allt gott og blessað en ekki láta það verða að þráhyggju. Ég brendi mig pínu á því þegar ég var í framhaldsskóla. Langaði alltaf að ná bestu einkuninni og fór það langt að taka áfanga aftur sem ég var með undir 7 í. Af hverju mæli ég gegn þessu? Jú það er útaf því að ég setti bara óþarfa pressu og álag á sjálfa mig sem ég græddi í raun ekkert á. Enginn er að pæla í hvað þú útskrifaðist með í meðaleinkun úr framhaldsskóla eða allavega á ég eftir að rekast á manneskju í dag sem finnst þetta voðalega merkilegt. Frekar einbeittu þér að ná skilning á efninu sem skóinn er að reyna kenna þér og hafðu sían bara gaman að lífinu.
Nýr kafli býður upp á góð tækifæri. Þrátt fyrir að breytingar séu smá ógnvekjandi og maður veit ekki hverju má búast við þá er það líka fegurðin við óvissuna. Að fá að skrifa þína eigin sögu og upplifa lífið. Ekki örvænta ef hlutirnir fara ekki eins og þú hélst að þeir myndu fara, þetta púslast allt saman á endanum.
.jpg)



Comments