top of page

Hvað tækir þú með ef þú mættir aldrei aftur snúa heim?

Penni: Ninja Sól Róbertsdóttir


Þessa spurningu fékk ég í verkefni í þjóðfræði um daginn, og þá átti maður að ímynda sér að maður væri að yfirgefa allt og alla, og hefja nýtt líf einhvers staðar, en að maður mætti pakka eigum sínum í flugfreyjutösku. Svo á maður að raða hlutunum á gólfið og taka mynd.


Ég ímyndaði mér að ég færi út í geim, og ég tók með mér brúsa, kortalesara, myndavél, lampa, reykelsi, varaliti, þakklætisdagbók, efnivið í list, og margt fleira. Ég tók með mér það sem ég ímyndaði mér að myndi gera heimilið mitt í geimskipinu fallegt og persónulegt. 


ree

Ég tók líka marga minnisvarða um fólk og atburði. Ég pakkaði til dæmis tei sem minnir mig á pabba minn, og kremi sem minnir mig á kærasta minn. Einnig hálsmen frá ömmu minni, og ljósmyndir í plastvasa. Ég sá fyrir mér hvernig ég myndi skreyta herbergið, og skemmta mér. 


Ég skreyti herbergið með lampanum mínum og listaverkum sem ég pakka saman í möppu, og ég skemmti mér með því að dekkja augun með augnblýöntum, og semja sögur úr orða úrklippum sem ég geymi í gömlu trélita boxi. 


Öll lógík var eitthvað sem maður varð svolítið að gera sér upp sjálfur. Ef ég væri einfaldlega að flytja til Sao Paulo, þá gæti ég alltaf keypt mér nýja hluti, en ég ímyndaði mér að ég flytti út í geim þar sem nýir iphone símar eða varalitir eru ekki aðgengilegir. Ég pakkaði samt tölvunni og hleðslutækjum, til þess að geta tekið myndir á myndavél og skoðað þær þangað til tölvan gefur upp öndina einn daginn. 


Það praktískasta sem ég pakkaði var tunguskafa, vatnsbrúsi, og skæri. Mér leist geggjað vel á mitt val. Ég gæti hafið nýtt líf í geimskipi, og ég yrði hundrað prósent gellan með fallegasta herbergið og skemmtilegustu hlutina. Þegar ég spurði mömmu hverju hún myndi pakka sagði hún:,,Brjóstahaldara, 2x naríur kannski 3, 1x buxur, 1x peysa, 1x hleðslutæki, og 2x sokkapör”

Svo sagði hún ,,Veit ekki hvort ég tæki með eitthvað sentimental því það er allt í símanum”.

Mín fyrstu viðbrögð voru ,,Piff mamma! Ég veit ekki til þess að það sé samsung verksmiðja í geimskipinu! Hvorar naríurnar ætlar þú svo að þurrka tárunum í eftir að þú ferð frá börnunum þínum fjórum, og elskulega eiginmanni þínum? Ha?”, en svo rýndi ég aðeins í muninn á vali okkar. 


Ég fattaði að ég pakkaði ekki stakri flík, ekki einu sinni húfu! Eða vetlingum! Engu, á meðan mamma pakkaði bara fötum. Hún hefði alveg eins geta hent lífi sínu í svona íþróttatösku með böndum og veifað okkur bless áður en hún stigi upp í geimskipið, og sæi okkur aldrei aftur. 

En svo velti ég því fyrir mér hvort hún hefði það kannski betra ef hún gleymdi smám saman augnlitum okkar, og unni sér til frægðar sem rokk tónlistarmaður á svalbarða, eða ljóðskáld í geimskipinu. Einn daginn hlyti samsung síminn hennar að deyja, og þá gæti hún ekki flett í gegnum myndir af okkur. 


Mér fannst svar hennar uppljóstra enn annað lag úr lauknum sem er hún mamma mín, en einnig fannst mér ég átta mig á mínum persónuleika. Ég pakkaði bara því sem er fallegt og gerir rými falleg, en engu sem hlýjar mér. Ég setti listina í fyrsta sætið, og gleymdi öllu öðru. Reyndar stend ég við það að listinn hennar mömmu sé furðulega einfaldur, og ég held að þú sért sammála. Ég vona að þú sért sammála. Og ég vona að þú spáir aðeins í þessu.


Hverju myndir þú pakka?


Comments


bottom of page