top of page

Facebook event sem uppljóstraði sjálfsálit mitt

Penni: Ninja Sól Róbertsdóttir


Ég er ekki félagsvera, þó ég reyni að vera þannig er það einhvern veginn ekki í eðli mínu. Ég elska alveg fólk, og ég elska að tala við fólk, en ég vel aldrei að setja mig í aðstæður þar sem ég sit innum stóra hópa af fólki, en um daginn sá ég auglýsingu á facebook fyrir viðburð. Þetta var fræðslukvöld um tíðarhringinn, ókeypis og haldið á listasafni í reykjavík. Lýsingin sagði frá dagskráinni; Fræðslu erindi frá lækni, næringafræðingi, og jóga kennsla. GDRN myndi síðan loka kvöldinu með nokkrum lögum.


ree

Einnig kom fram að allir sem mættu fengju ókeypis poka með góðum vörum fyrir konur. Krem og bætiefni og svoleiðis. ,,Frábært!” hugsaði ég, því ég gæti þarna komist hjá því að borga fjögur þúsund kall fyrir næstu krukkuna af andlitskremi. Ég skráði mig á biðlista og fékk póst viku seinna um að það væri laust pláss fyrir mig. Ég skoðaði ferðina á safnið í klappinu, og sá að það var ekkert mál að hoppa í strætó til að komast þangað.

Ég fór ein á viðburðinn, og kom auga á nokkrar aðrar konur sem mættu einar, en ég sá líka slatta af vinkonum og systrum og frænkum. Ég tók líka eftir því að meiri hluti þessarra kvenna var greinilega að koma fyrir fræðslu um breytingaskeiðið, sem var ákveðinn rauður þráður út alla fræðsluna. Mér fannst ég smá út úr kú, að mæta þangað nítján ára, saupandi á einhverjum engifer-myntu drykk, en ég lét það ekki trufla mig, og fann mér jóga mottu til að setjast á. 


Ég lærði allskonar úr fræðslunum. En burt sé frá því að þessi viðburður snerist um tíðarhringinn lærði ég líka að taka af skarið og mæta á viðburð. Ég fékk að fljóta innum svona sextíu konur, og ég áttaði mig á að í einveru minni hef ég gleymt hvernig konur eru. Ég hef gleymt að á sumum dögum er ekki hægt að fá hárin á hausnum til að liggja alveg flöt, ég hef gleymt að stundum er eyelinerinn smá skakkur, eða að konur eru allskonar, og í kjölfari fjölbreytileikans verða þær allar fallegri. Ég gleymdi að ein maskaraklessa eða tveir þreyttir skór hafa ekki mikil áhrif á hvernig við lítum út. 


Mér finnst ég áhorfandi þegar megnið af konum sem birtast mér koma frá tölvuskjánum eða símanum mínum. Mér finnst fegurðin svo langt í burtu. Mér finnst hún vera í ameríku eða frakklandi, í hælaskóm og síðum kápum, ekki inni í herbergi hjá mér. Ég sé konur alls staðar úr heiminum í símanum, og þá finnst mér ég vera að fá rétta mynd. Eins og þær séu ekki allar búnar að þurrka maskaraklessuna og velja sín bestu föt áður en þær hefja upptöku á einhverju vídeói sem sigldi inn á minn algoriþma. Svo verð ég fyrir vonbrigðum þegar ég stend upp til að bursta tennur, og lít á mig í speglinum. Ég sé gular tennur og fílapensla, og tvær bólur og litlu hárin á efri vörinni sem virðast glansa frá lampanum inni á baði, til þess eins að særa mig. 


Ég bursta tennur og sé fyrir mér lífið þegar ég er búin að ná í skottið á fegurðinni. Þegar ég er orðin fullorðin og fíngerð og með líflegra hár, og enga fílapensla. Ég endurtek þessa rútínu á hverjum degi. Óöryggið þrífst í einverunni, því þar er enginn til að grípa inn eða sýna mér að fegurðin einskorðast ekki við dýrar kápur eða slétta húð. Með því að mæta og setjast á jógamottu innum nokkra tugi kvenna, allar á ólíkum stöðum í lífinu, fékk ég uppljómun. Ég gat ekki lengur falið litla púkalega sjálfsálitið mitt fyrir mér, því á öllum þessum mottum voru fallegar konur. Ég gat ekki horft á eina konu án þess að finna nokkra hluti í fari hennar sem mér fannst fallegir. Hvernig gat mér fundist allar þessar konur fallegar, en ekki mig sjálfa? 


Lexían var ljúfsár, en hún var mikilvæg. Hún var stór og dynjandi, og hún bergmálar enn í hausnum á mér. Það að fara út og mæta á staðinn getur verið stærsta áskorunin í svona lexíum. Í staðinn fyrir að vista möntrur á pinterest í símanum, að fara bara út og finna sér stað innum allt fólkið getur leitt af sér stóra neistann sem við fundum ekki inni hjá okkur. 


Ég vona að þú mætir á staðinn næst.


Comments


bottom of page