Echoes of the End : Íslensk Frumraun með Íslenskan Innblástur
- Embla Waage

- Sep 30
- 3 min read
Í upphafi september ræddi ég við höfundinn Magnús Friðrik Guðrúnarson um tölvuleikinn Echoes of the End. Þá var helst einblínt á íslenskan innblástur og þýðingu, þar sem það stóð teymi leiksins nærri. Magnús er einn af handritshöfundunum fyrir tölvuleikinn Echoes of the End, sem var þróaður af íslenska leikjafyrirtækinu Myrkur Games. Síðastliðin ágúst fengu áhugasamir leikmenn loksins að sökkva sér í ævintýraheiminn Aema, þar sem forneskjan Ryn, sem fæddist með fornan galdramátt, lendir í ýmsum svaðilförum. Leikurinn hefur fengið einstaklega góða dóma hvað varðar söguþráð og heimssköpun leiksins, en það er einmitt sérsvið Magnúsar.
,,Þetta er búið að vera ævintýri núna í átta ár fyrir mig [...] Þetta er viss áfangi sem er búið að ná hérna.” Þrátt fyrir gríðarlega vinnutörn virðist Magnús vera með blendnar tilfinningar við að sleppa leiknum úr hreiðrinu. ,,Við þurfum að ákveða eitthvað sem við höfum eiginlega aldrei þurft að ákveða áður - hvað er næst?” Teymið hefur skipst á nokkrum hugmyndum, en nú er kominn tími til þess að negla niður næsta verkefni. “Staðurinn þar sem list og vörusköpun mætast er þessi spurning um hvað er raunhæft og hvað er spennandi og hver er rétti punkturinn þarna á milli,” Magnús greinir frá því að það þarf að hafa ýmis atriði í huga í þessu upphafs ferli. “Af því að ef maður er að gera það sem er bara raunhæft þá held ég að maður sé hættur að gera list, og ef maður er að gera eitthvað sem er bara spennandi þá er maður hættur að lifa af því”

Íslenskur innblástur í fyrirrúmi
Eitt er þó fyrir víst varðandi þetta næsta verkefni: íslensk áhrif verða áfram í fyrirrúmi. ,,Þetta er partur af heimsköpuninni hjá okkur og heimsköpun er svo stór hluti af fantasíu.” Þessi innblástur er sannarlega sýnilegur í leiknum Echoes of the End. Landslag leiksins er bersýnilega óður til íslensku náttúrunnar. ,,Þetta er mjög lógískur staður til þess að byrja að draga innblástur vegna þess að í fyrsta lagi er þetta það sem við þekkjum best [...] Þetta er kúltúr og saga sem við fæðumst inn í og þekkjum.” Magnús bendir á að samtímis er þetta heimur sem margir út í heimi þekkja lítið til. Það mætti jafnvel segja að þetta aðgreini Echoes of the End frá sambærilegum ævintýra leikjum.
Tungumál durtanna, sem þjóna hlutverki óvina í leiknum, gæti hljómað kunnuglega í eyrum Íslendinga. Teyminu fannst einstaklega skemmtilegt að leyfa Íslendingum að skilja ‘tröllamálið’ þeirra, og ákvað að gefa þeim alfarið íslenskar línur. Magnús vitnar einnig í undirleik leiksins, en tónlistin er samin af Viktori Inga Guðmundssyni og dregur rætur í íslenska fólksöngva. Meðal annars má heyra ívitnanir í laglínur úr Krummi Svaf í Klettagjá og Á Sprengisandi þegar durtarnir fara á stjá.
Áskoranir sem fylgja því að þýða rúmar 40 þúsund línur
Magnús var einnig hluti af teymi Myrkurs sem þýddi íslenskan texta fyrir allar 40 þúsund línur leiksins. Leikurinn er þessa stundina með texta á 11 tungumálum, en Myrkur Games sá alfarið um þýðingu á íslenska textanum. ,,Við sögðum við útgefandan: ,,Heyrðu, við viljum íslenskan texta, og við gerum það bara innanhúss!”” Þýðingin var gerð af Viktori auk tveggja forritara í teyminu, Tuma Guðmundssyni og Guðna Nathan Gunnarssyni. Magnús sjálfur sá um að fara yfir og samræma textann. Hann minnist þess að það reyndist áskorun að úrskurða um óhefðbundin tæknihugtök og ýmsan orðaforða sem fantasíuheimur býður upp á. Hann nefnir t.a.m. ‘rammatíðni’ sem dæmi, en það varð að valinu sem íslenska þýðingin á enska orðinu ‘frame rate’. ,,Enskan er svo allt öðruvísi tungumál vegna þess að enskan býður þér upp á að nota orð sem er svona sirka rétt, svo lengi sem það hangir í þeirri hugmynd sem þú ert að tala um.” Hér nefnir hann enska orðið ´ward’ sem dæmi, íslenska þýðingin ‘varða’ þótti ekki viðeigandi í samhengi leiksins - en þá urðu ‘vættur´ fyrir valinu í staðinn. ,,Þetta er tenging sem er kannski ekki alveg rétt þýdd, en merkingin helst betur með því að þýða hana smá vitlaust.”

Síðan er það auðvitað tímalausa áskorunin í öllum sambærilegum þýðingum - að þýða orðaleiki. ,,Á maður að búa til nýjan brandara sem virkar líka á nýja tungumálinu, eða samþykkja að þetta eigi ekkert eftir að vera fyndið í nýja tungumálinu?” spyr Magnús. Magnús minnist brandara sem hann las í Andrés Önd sem barn, en honum þótti hann ekki jafn skynsleg í íslenskri þýðingu. Hann nefnir þó að yfirleitt sé einmitt þessi leið valin, að einfaldlega samþykkja að brandarinn verði ekki fyndinn.
Leikurinn sem er loksins fáanlegur!
Þrátt fyrir ýmsar áskoranir stenst þýðingin sannarlega allar væntingar og áhugasamir landsmenn eru eindregið hvattir til þess að kynna sér þennan fyrsta leik fyrirtækisins Myrkur Games. Auk þess að draga innblástur í íslenska náttúru, menningu og svo auðvitað íslenskuna sjálfa - er þetta spennandi ævintýraleikur með grípandi söguþráð á nánast AAA kvarða. Leikurinn fæst á Steam, PlayStation Store og XBOX Store.
.jpg)



Comments