top of page

Bókin Vikuspá

Viðtal við Karítas Hrund Pálsdóttur


Karítas Hrundar Pálsdóttir var að gefa út nýja bók sem heitir Vikuspá og er hluti af

„Árstíðir-seríunni“. Þetta eru bækur með sögum á einföldu máli sem henta til dæmis

þeim sem eru með íslensku sem annað mál. Vikuspá er tileinkuð fyrirmyndum og

Hvunndagshetjum. Ég fékk Karítas til að spjalla við mig um bókina og höfundarferilinn.


ree

Um höfundinn

Karítas Hrundar Pálsdóttir, höfundur Vikuspár, gaf áður út bækurnar Árstíðir og Dagatal.

Hún lauk doktorsprófi og MA- gráðu í ritlist og BA-gráðu í íslensku með japönsku sem

aukagrein. „Bækurnar sameina svolítið áhuga minn á tungumálum og ritlist,” segir

Karítas en hún hefur búið víðsvegar um heiminn. „Reynsla mín af því að búa erlendis

og læra ólík tungumál var kveikjan að þessum bókum fyrir þá sem eru að læra íslensku

sem annað mál”. Menntun Karítasar og lífsreynsla hvatti hana til að skrifa sögur á

einföldu máli. Sjálfri hefur henni fundist skemmtilegt og gefandi að lesa stuttar sögur á

því tungumáli sem hún er að læra. En það var ekkert sambærilegt lesefni í boði fyrir þá

sem eru að læra íslensku. Karítas ákvað þess vegna að taka af skarið og skrifa svona

bækur á íslensku. 


Fyrri verk

Bókin Árstíðir er fyrsta bók Karítasar en hún kom út árið 2020 og er fyrsta bókin í

seríunni. Önnur bókin í seríunni er Dagatal sem kom út árið 2022. Eftir það gaf Karítas

út Árstíðir –Verkefnabók sem styður við íslenskunám með allskonar verkefnum sem

tengjast sögunum í Árstíðum . Þá var Karítas ein af 12 höfundum sem unnu saman að

smásagnasafninu Það er alltaf eitthvað sem kom út hjá Unu útgáfuhúsi árið 2019.


Vikuspá

Vikuspá er þriðja bókin í „Árstíðir-seríunni” en bækurnar eru samt allar sjálfstæðar. Það

sem tengir þær saman er ritstíll bókanna. Bækurnar innihalda skýrar og hnitmiðaðar

sögur á einföldu máli sem henta þeim sem eru læra íslensku sem annað mál. Í Vikuspá

eru 86 sögur á 6 mismunandi getustigum. Getustig sögu má sjá á því hvað hversu mörg

tákn, frá 1–6, eru fyrir ofan titil hennar. Bókinni er skipt upp í 7 hluta eins og vika, byrjar

á sunnudegi og endar á laugardegi.


ree

Hvaða flokk telst bókin undir?

Bókin er í raun hluti af nýrri bókmenntagrein. Til eru fleiri bækur í þessum stíl erlendis en

Árstíðir var fyrst sinnar tegundar hér á Íslandi. Sögurnar í seríunni eru skáldskapur en

stundum tekur Karítas fyrirmyndir úr raunveruleikanum og spinnur sögu um þau. „Bókin

er aðgengileg fyrir fólk sem er að kynnast Íslandi og íslenskri menningu,” segir Karítas. Í

lok bókarinnar eru frekari útskýringar til dæmis um merkingu ákveðna orða eða

útskýring á aðstæðum sem fólk sem er að læra íslensku sem annað mál fattar kannski

ekki. Ein sagan í bókinni tengist sjónvarpi en einu sinni var aldrei sjónvarp á

fimmtudögum og þá í lokin eru frekari útskýringar á sjónvarpssögu og menningu

Íslands.


Innblásturinn

„Í bókinni er ég að leika með þá íslensku þjóðtrú að það geti skipt máli á hvaða vikudegi

maður fæðist af því það getur spáð fyrir um framtíðarstarf manns,” segir Karítas.

Sögurnar í bókinni vísa í þessa hugmynd um að sunnudagur sé til sigurs, mánudagur til

mæðu, þriðjudagur til þrauta og svo framvegis. Þá segja sögurnar frá lífi og starfi

allskonar fólks en bókin er tileinkuð fyrirmyndum og hvunndagshetjum. „Þetta er svona óður til fólks nær og fjær sem hefur veitt mér innblástur,” segir Karítas. „Fólks sem hefur tekist á við lífið með æðruleysi, jákvæðni og þrautegju að leiðarljósi. Fólks sem hefur brotist út úr

staðalímyndum og/eða barist fyrir rétti sínum. Fólks sem hefur gert heiminn að betri

stað.” Sem dæmi um sögufrægar fyrirmyndir sem koma fyrir í bókinni nefnir Karítas:

Ólafíu Jóhannsdóttur, fyrsta félagsráðgjafann og Hans Jónatan, fyrsta hörundsdökka

Íslendinginn. Ólafía var frumkvöðull á sviði hjálparstarfs og mannúðarmála. Hans

Jónatan fæddist inn í þrældóm í St. Croix í Karíbahafi en fann frelsi á Íslandi. Hann

giftist dóttur hreppstjórans á Djúpavogi og var verslunarstjóri og bóndi.


Markhópur og viðtökur

Bókin er stíluð á þá sem eru að læra íslensku sem annað mál og höfðar til fullorðinna

einstaklinga. Sögurnar eru sumar um flókið málefni þó að þær séu skrifaðar á einfaldan

hátt hvað varðar tungumálið. „Árstíðir-serían“ hefur verið notuð sem kennsluefni fyrir

fullorðna og nemendur á framhaldsskólastigi. Sumir nota bókina líka sem aukaefni til að

læra íslensku sem annað mál heima eða til yndislestrar. Viðtökurnar hafa verið góðar en

Árstíðir er til dæmis uppseld hjá útgefanda. Það er nú verið að prenta bókina í fjórða

sinn. „Ég hef heyrt að sögurnar séu lesnar víða á Íslandi en líka erlendis, til dæmis í

Japan, Skotlandi og Kanada,“ segir Karítas. Henni finnst mikilvægt að tengjast lesendum en hún gerir það í gegnum @karitas_sogur á samfélagsmiðlum. Sá aðgangur er aðeins tileinkaður starfi hennar sem rithöfundur. Þarna setur hún inn efni sem tengist bókunum svo sem myndir af þeim eða færslur sem tengja sérstakar sögur við ákveðnar aðstæður í daglegu lífi.


Hvernig er að gefa út bók?

„Það er langt ferli að gefa út bók,” segir Karítas. „Það kemur eiginlega alltaf jafn mikið á

óvart.” Þar sem þetta er þriðja bók Karítasar hefur ferlið auðveldast með reynslunni en

hún segir að þetta taki samt tíma og orku. Vinna þarf hugmyndavinnu. Svo er það að

skrifa og laga textann mörgum sinnum og vinna síðan með útgefanda en svo hefst markaðssetningin sem í raun hættir aldrei að mati Karítasar. Þegar Karítas gaf út fyrstu

bókina sína Árstíðir gekk hún á milli útgefanda og fann svo Unu útgáfuhús, sem hefur

nú sameinast Benedikt bókaútgáfu, og hefur verið þar síðan.


Stuðningsaðilar

Eftir námið í ritlist öðlaðist Karítas tengingar sem hafa hjálpað henni sem rithöfundur.

„Það er dýrmætt að eiga ritvini,” segir Karítas, „fólk sem maður getur skipst á

hugmyndum og yfirlestri við". Þar að auki eru foreldrar hennar mjög stuðningsríkir og

hafa hjálpað henni mikið í gegnum tíðina. Svo eru það útgefandinn og ritstjórinn hennar

sem styðja við bakið á henni.








Comments


bottom of page