top of page

Dyrasíminn er vanmetin snilld

Penni: Saga Evudóttir Eldarsdóttir


Dyrasímar eru eitt af þessum tækjum sem fáir dásama, en allir treysta á.Við mannverur

kunnum ekki gott að meta. Það er alltof mikið af afbragðs fyrirbærum sem við gefum ekki

nógu mikinn gaum.

Það er enginn sem skilgreinir sig sem dyrasíma-aðdáanda. Það er enginn sem klöngrast

upp esjuna og kallar svo ,,ÉG ELSKA DYRASÍMA”. Neil Armstrong tók ekkert skref fyrir

dyrasíma. En innst inn í heilahveli allra lífera leynist lítið bréfsnifsi sem á stendur:

,,dyrasímar eru snilld”. Því þeir virkilega eru það.

ree

Húmor og grín eru mannlegir breiskleikar sem fá ekki nógu mikinn sýnileika í daglegum

Athöfnum.

Sem barn var það uppáhalds tómstund mín að gantast í dyrasímanum. Ég brá mér í

mismunandi hlutverk, beitti raddböndum mínum á allskins hætti og skemmti mér

konunglega. Með dyrasímanum fann ég mína rödd og leyfði hæfileikum mínum að njóta sín.

Dyrasíminn varð minn vettvangur til að tjá sköpunargáfu mína.


Það er svo magnað að hafa möguleikann á því að vita hver ber að dyrum. Fyrir fjögur þúsund árum fengum við hurðina, og síðan þrjú-þúsund áttahundruð og sjötíu árum síðar dyrasímann. Eftir þrjú-þúsund áttahundruð og sjötíu ár af því að kalla ,,hver er?” nokkrum sinnum á dag, var loks engin þörf á því. Fólk gat farið að segja skemmtilegri hluti eins og ,,Hæ”, ,,Bello”, ,,Þú hefur eina mínútu til að hleypa mér inn eða ég fer að syngja!", ,,Sæll jarðarbúi!” ,,Hér talar andsetni dyrasíminn þinn - hvern viltu tala við?" eða ,,Hleypið mér inn áður en grannarnir fara að skoða mig eins og safngrip!" 


Fólk varð ekki aðeins skemmtilegra heldur einnig öruggara með tilkomu dyrasímans. Það var mun auðveldara að koma í veg fyrir boðflennur, og manneskjur sem ógn stafaði af, svo lengi sem maður þekkti röddina í þeim. Nema auðvitað ef þau nota sömu aðferð og úlfurinn í ,,kiðlingarnir sjö”, sem er fremur ólíklegt. Það eina við dyrasímana er að oft gefa þeir frá sér óþolandi ærandi hljóð. Sem lætur mann hrökkva alveg í kút. En sem betur fer er hljóðið ekki endalaust, og oftast aðeins nokkrar sekúndur á lengd.


Fólk vanmetur stórkostlegt notagildi dyrasíma. Dyrasímar ýta undir sköpunargleði, veita

öryggi og lífga upp á hversdagsleikann. Þrátt fyrir að hann reynist sumum óþolandi, ber hann svo marga kosti í skauti sér. Dyrasíminn er vanmetin snilld!


Comments


bottom of page